Glódís: Erum mikið betri núna

Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur í Stjörnunni fara til Rússlands …
Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur í Stjörnunni fara til Rússlands í október. mbl.is/Ómar

„Drógumst við gegn rússnesku liði? Aftur?“ sagði Glódís Perla Viggósdóttur miðvörður Stjörnunnar þegar blaðamaður upplýsti hana um það hverjir andstæðingar liðsins yrðu í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Stjarnan mætir Zvezda 2005 Prom frá Rússlandi og sigurvegari rimmunnar mætir svo Liverpool eða Linköping í 16-liða úrslitum. Stjarnan lék síðast í Meistaradeildinni fyrir tveimur árum og tapaði þá samanlagt 3:1 gegn öðru rússnesku liði, Zorkij. Glódís fagnaði því ekkert sérstaklega að þurfa að fara aftur til Rússlands.

„Ég get alveg viðurkennt það að mér fannst ekkert gaman í Rússlandi síðast,“ sagði Glódís hlæjandi. „Það er erfitt að þurfa að fara þangað en við ættum að eiga einhverja möguleika,“ bætti hún við.

Glódís segir Stjörnuliðið talsvert sterkara í dag en þegar það lék síðast í Meistaradeildinni.

„Mér finnst við mikið betri núna, stöðugri og með betri liðsheild. Markmiðið okkar er að komast áfram, ekki bara fyrir okkur heldur fyrir Ísland svo að við dettum ekki niður styrkleikalistann og þurfum að fara í umspil til að komast í keppnina,“ sagði Glódís og vonast til að fá að mæta annað hvort Liverpool eða Linköping.

„Það yrði ógeðslega gaman til dæmis að mæta Liverpool. Það er líka gaman að spila á móti einhverjum sem maður þekkir,“ sagði Glódís létt og vísaði til Katrínar Ómarsdóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert