Meiðsli binda endi á feril Tommy Nielsen

Tommy Nielsen
Tommy Nielsen mbl.is/Ómar Óskarsson

Danski knattspyrnumaðurinn Tommy Nielsen sem gerði garðinn frægan með FH-ingum í mörg ár en leikur nú sitt annað tímabil með liði Fjarðabyggðar í knattspyrnu meiddist illa á hné og hann segir að þau bindi endi á feril sem knattspyrnumaður.

„Þegar þú getur ekki tekið ákvörðun sjálfur um að hætta í fótbolta þá gerir líkaminn það fyrir þig. Ég hef fengið þær „frábæru“ fréttir að eftir að hafa farið í myndatöku á hnénu í gær þá er komið í ljós að fremra krossbandið er slitið svo ég held að nú sé fótboltaferillinn búinn.

Þetta er mín fyrstu alvarlega meiðsli svo ef þau áttu að koma þá er ég ánægður að þau komu nú í stað þess að koma fyrir 20 árum síðan. En það er svolítið pirrandi að enda ferilinn með þessum hætti,“ skrifar Tommy á facebook síðu sína.

Tommy Nielsen er 42 ára gamall og er einn besti erlendi leikmaðurinn sem spilað hefur hér á landi. Hann átti frábær níu ár með FH þar sem hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari með liðinu og vann bikarinn í tvígang.

Hann gekk til liðs við Fjarðabyggð í fyrra og fór upp með liðinu úr 3. deildinni og í dag er félagið í toppsæti 2. deildarinnar og er komið með annan fótinn í 1. deild. Tommy hefur spilað 16 af 17 leikjum liðsins og hefur í þeim skorað eitt mark.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert