Þjálfari Inter: Gleymið fyrri leiknum

Walter Mazzarri kveikti sér í sígarettu þegar hans menn voru …
Walter Mazzarri kveikti sér í sígarettu þegar hans menn voru við æfingar á Laugardalvellinum fyrir leikinn á móto Stjörnunni. Eggert Jóhannesson

Walter Mazzarri þjálfari ítalska liðsins Inter vill að sínir menn gleymi fyrri leiknum á móti Stjörnunni og mæti í leikinn gegn Garðabæjarliðinu á fullri ferð en liðin eigast við í seinni leiknum í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á San Síró annað kvöld.

Inter hafði betur, 3:0, í rimmu liðanna á troðfullum Laugardalsvelli fyrir viku síðan svo sæti Inter-liðsins í riðlakeppninni er svo til víst.

„Ég hef beðið leikmenn mína að gleyma fyrri leiknum. Við einbeitum okkur að markmiðunum, að komast í riðlakeppnina. Drengirnir eiga að gefa sig allan í leikinn og þannig hefur það alltaf verið hjá liðum undir minni stjórn,“ segir Mazzarri.

Leikurinn er góður undirbúningur hjá Inter fyrir keppni í ítölsku A-deildinni sem hefst á sunnudaginn. Þá sækir Inter lið Torinó heim. Sama dag á Stjarnan erfiðan leik í Pepsi-deildinni en þá sækir liðið Íslands- og bikarmeistara KR heim í Frostaskjólið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert