Möguleikar HK á að fara upp nær engir

HK tapaði fyrir Grindavík í kvöld.
HK tapaði fyrir Grindavík í kvöld. mbl.is/Kristinn

Grindavík sótti útisigur í Kópavog í kvöld þegar Grindavíkingar sigruðu HK, 2:1 í eina leik kvöldsins í 19. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Þar með eru möguleikar HK sem er í 4. sæti 1. deildar, orðnir nánast engir að komast upp í efstu deild á næstu leiktíð.

Viktor Unnar Illugason kom HK yfir með marki á 30. mínútu en Óli Baldur Bjarnason sem hafði komið inn á sem varamaður snemma í seinni hálfleik jafnaði metin fyrir Grindvíkinga á 65. mínútu áður en Alex Freyr Hilmarsson skoraði svo sigurmark Grindavíkur þremur mínútum síðar. Atli Valsson leikmaður HK fékk svo rautt spjald fjórum mínútum fyrir leikslok.

HK er í 4. sæti 1. deildar með 29 stig eftir 19 leiki, sjö stigum frá ÍA sem er í 2. sæti, en á leik til góða á HK. Möguleikar HK á að komast upp eru því eins og áður segir harla litlir úr þessu.

Úrslitin þýða jafnframt að Leiknir R. getur tryggt sér sæti í úrvalsdeild með því að vinna Víking Ó. í Ólafsvík annað kvöld. Leiknir hefur 40 stig í 1. sætinu en Víkingur 31 stig í 3. sæti þegar liðin eiga fjóra leiki eftir í deildinni.

Viktor Unnar Illugason (til vinstri) skoraði mark HK gegn Grindavík …
Viktor Unnar Illugason (til vinstri) skoraði mark HK gegn Grindavík í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert