Rúnar Páll: Göngum stoltir frá borði

Atli Jóhannsson stöðvar Hernanes í leik Inter og Stjörnunnar í …
Atli Jóhannsson stöðvar Hernanes í leik Inter og Stjörnunnar í kvöld. AFP

„Auðvitað er leiðinlegt að tapa 6:0, það er sama á móti hverjum það er, en við komumst ótrúlega langt í Evrópukeppninni í ár og göngum stoltir frá borði,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn gegn Inter Mílanó á San Síró í kvöld.

Eftir 6:0-tap í kvöld og 3:0-tap á Laugardalsvelli í síðustu viku eru Stjörnumenn úr leik í sinni fyrstu Evrópukeppni. Liðið sló út þrjá andstæðinga á leið sinni í umspilið um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en mætti ofjörlum sínum þar.

„Við vissum það fyrir fram að þetta yrði erfitt. Þeir bara kaffærðu okkur. Við spiluðum svo sem ágætlega fyrstu 20 mínúturnar en síðan skoruðu þeir bara mjög góð mörk sem við réðum ekkert við. Þetta sýndi yfirburðina sem þeir hafa,“ sagði Rúnar.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er svolítið sterkur andstæðingur. Drengirnir lögðu sig vel fram og gerðu sitt besta, það má ekki gleyma því. Þetta er búið að vera frábært ævintýri fyrir okkur, við erum búnir að slá út mjög sterk lið og það er það sem situr eftir. Það er mjög stórt að hafa spilað í umspili,“ sagði Rúnar og tók undir að það yrði sjálfsagt ógleymanlegt að hafa stýrt liði á San Síró.

Þetta var stórkostleg upplifun

„Þetta var stórkostleg upplifun, með allt þetta fólk á bakvið okkur. Þetta var æðislegt og rosaleg stemning, mikið ævintýri fyrir drengina, en ekki góð úrslit,“ sagði Rúnar.

Nú tekur við baráttan við FH og KR um Íslandsmeistaratitilinn en mun einhvers konar Evrópudeildarþynnka leggjast yfir Stjörnumenn eftir leikinn í kvöld?

„Ég vona ekki. Það væri kannski svo ef við værum um miðja deild en við erum að berjast um Íslandsmeistaratitil og strákarnir vilja hann mjög mikið. Við þurfum að mæta vel stemmdir í KR-leikinn og leggja okkur alla fram þar til að ná í hagstæð úrslit. Við verðum án margra í þeim leik en verðum bara að gera okkar besta,“ sagði Rúnar, en Garðar Jóhannsson meiddist í leiknum í kvöld og verður ekki með gegn KR.

Áður var ljóst að Jóhann Laxdal og Michael Præst yrðu ekki meira með á tímabilinu, og þeir Niclas Vemmelund og Martin Rauschenberg taka út leikbann gegn KR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert