Guðmunda: Klárlega stærsta stundin

Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss, leiðir liðið út á Laugardalsvöllinn í dag í bikarúrslitaleik í fyrsta sinn í sögu félagsins, en liðið mætir þá Stjörnunni. Guðmunda segir liðið ætla fyrst og fremst að reyna að njóta leiksins.

„Það var frekar mikil ró yfir hópnum á æfingu og við ætlum að reyna að njóta þessa leiks, það er frábært að fá að spila hérna á Laugardalsvellinum sem er í frábæru standi,“ sagði Guðmunda í samtali við mbl.is í aðdraganda leiksins, en hún tekur undir að það sé einn af hápunktum ferilsins að fara fyrir liðinu í svona stórleik.

„Það er gaman að fá að leiða svona ungt lið til leiks, við stofnuðum meistaraflokkinn bara fyrir fimm árum svo það er góð uppskera að mæta hingað. Það hefur verið gaman að taka þátt í þessari uppbyggingu á Selfossi og hún heldur áfram. Vonandi er þetta einn af mörgum úrslitaleikjum sem við förum í,“ sagði Guðmunda Brynja Óladóttir, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

Flautað verður til leiks á Laugardalsvelli klukkan 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert