Kristrún fékk bað: Verð seint leið á þessu

„Ég skoraði sjálfsmark í úrslitaleiknum fyrir tveimur árum þannig að það var fínt að koma svona inn í þennan leik,“ sagði Kristrún Kristjánsdóttir sem átti frábæran leik í sigri Stjörnunnar á Selfossi í bikarúrslitaleiknum í knattspyrnu í dag.

Eitthvað var tímaskynið að fara með Kristrúnu í fögnuðinum eftir leik en sjálfsmarkið sem hún rifjaði upp kom í úrslitaleiknum gegn Val fyrir fjórum árum. Það er óhætt að segja að hún hafi nú bætt upp fyrir það. Kristrún lagði upp tvö mörk og skoraði eitt sjálf í 4:0-sigri á baráttuglöðu liði Selfoss. 

„Þetta var mjög erfiður leikur. Þær náðu að loka vel á okkur en við settum mark á þær rétt fyrir hálfleik og komum svo sterkar inn í seinni hálfleikinn,“ sagði Kristrún áður en hún fékk vatnsbað í boði Söndru Sigurðardóttur markvarðar. Nánar er rætt við Kristrúnu í meðfylgjandi myndbandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert