Spennustigið skiptir öllu

Fagna leikmenn Selfoss að loknum bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvelli í dag?
Fagna leikmenn Selfoss að loknum bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvelli í dag? mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu ritar nýjan kafla í sögu sína í dag þegar liðið spilar til bikarúrslita í fyrsta sinn. Liðið mætir þá Íslandsmeisturum Stjörnunnar á Laugardalsvellinum, en Stjarnan varð bikarmeistari í fyrsta sinn fyrir tveimur árum og vonast til að vinna tvöfalt í ár. Flautað verður til leiks klukkan 16 á Laugardalsvelli.

Morgunblaðið fékk Hlyn Svan Eiríksson, þjálfara Breiðabliks, til að spá í spilin fyrir úrslitaleikinn, en Stjarnan sló Blika einmitt út í undanúrslitunum. Hlynur reiknar með því að á brattann verði að sækja fyrir ungt lið Selfoss.

„Allar í Selfossliðinu þurfa að eiga sinn besta leik í sumar ætli þær sér að vinna leikinn á meðan Stjarnan hefur frekar efni á því að tvær eða þrjár eigi slakan dag. En það besta er náttúrlega að allt getur gerst enda er þetta einn úrslitaleikur þar sem allt er undir og ég vona að úr verði hörkuleikur,“ sagði Hlynur, sem telur þjálfara liðanna hafa úr mismunandi verkefnum að vinna.

„Bæði liðin eru að mínu viti með mjög klóka þjálfara, en fyrirfram mundi ég halda að Ólafur [Þór Guðbjörnsson] kæmi yfirvegaðri og rólegri inn í verkefnið með Stjörnuna á meðan Gunnar [Borgþórsson] fer í gegnum þetta meira á stemningunni og reynir að búa til villidýr í Selfossliðinu þannig,“ sagði Hlynur, og telur stemninguna einmitt vera helsta styrkleika Selfoss. Mikill áhugi er fyrir leiknum fyrir austan fjall og búist er við fjölmenni þaðan á leikinn, en stuðningurinn hefur verið góður við liðið í sumar jafnt heima sem og á útivelli.

Nánar er farið yfir bikarúrslitaleikinn og rætt við Hlyn í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Fagna leikmenn Stjörnunnar að loknum bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvelli í dag?
Fagna leikmenn Stjörnunnar að loknum bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvelli í dag? Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert