Stjarnan bikarmeistari 2014

Stjarnan varð í dag bikarmeistari kvenna í knattspyrnu í annað sinn með því að leggja Selfoss að velli, 4:0, á Laugardalsvelli. Harpa Þorsteinsdóttir skoraði þrennu í leiknum.

Stjarnan varð bikarmeistari í fyrsta sinn fyrir tveimur árum en þetta var fyrsti bikarúrslitaleikur Selfyssinga. Leikurinn var mjög jafn í fyrri hálfleik en Harpa braut ísinn rétt fyrir leikhlé með góðum skalla eftir fyrirgjöf Kristrúnar Kristjánsdóttur.

Marki undir reyndu Selfyssingar ýmislegt til að jafna metin en þeim gekk ekkert að skapa sér færi gegn þaulskipulögðu liði Stjörnunnar sem fékk ekkert mark á sig í allri bikarkeppninni.

Tuttugu mínútum fyrir leikslok gerði Gunnar Rafn Borgþórsson þjálfari Selfoss breytingar og færði miðvörðinn Blake Stockton fram. Enn tókst liðinu ekki að skapa sér færi en aftur á móti skoruðu Stjörnukonur þrívegis á síðustu tíu mínútunum.

Harpa skoraði tvö á tveimur mínútum, það fyrra eftir fullkomna aukaspyrnu Kristrúnar og hið síðara með hörkuskoti úr teignum. Kristrún kórónaði svo frábæra frammistöðu sína með því að skora undir lokin, eftir sendingu Írunnar Þorbjargar Aradóttur.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma hér inn innan skamms og fjallað verður um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á mánudag.

Selfoss 0:4 Stjarnan opna loka
90. mín. Kristrún Rut Antonsdóttir (Selfoss) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert