Kristján: Ekkert lið of gott til að falla

Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Kristján Guðmundsson, þjálfari var að vonum ekki sáttur með 2:0 tap sinna manna gegn Stjörnunni fyrr í kvöld en þrátt fyrir tapið spiluðu Keflvíkingar nokkuð vel í leiknum.

„Við erum alveg á pari við þetta lið og eigum að fá stigið út úr leiknum. Heilt yfir er spilamennskan ágæt. Þeir fá ekki mörg færi. Við fáum svo sem ekki mörg færi heldur en við áttum möguleika á að skora,“ sagði Kristján en Keflvíkinga vantaði herslumuninn í að búa sér til alvöru færi.

„Það vantaði að taka réttari hlaup inn í teiginn. Þegar við  eigum þrjú skot á markið í seinni hálfleik í vítateignum þá hefði verið ágætt að sjá boltann inni,“ sagði Kristján.

Síðasti sigur Keflvíkinga í deildinni kom gegn Fylki þann 22. júní og biðin er efti sigri á þessum vettvangi er orðni ansi löng.

„Ef við spilum svona eins við gerðum núna þá fáum við einhver stig. Það dettur en þetta er orðin ansi löng  leið án sigurs,“ sagði Kristján.

„Þetta er mjög jafnt og er búið að vera mjög jafnt í sumar. Þótt við höfum verið fyrir ofan þennan pakka framan af sumri þá erum við komnir í þennan þétta pakka sem er í neðri hlutanum,“ sagði Kristján en spurður hvort Keflvíkingar séu of góðir til að falla segir Kristján:

„Það er ekkert lið of gott til að falla. Það er bara þannig. Það verða bara tvö neðstu liðin sem falla í hvert í sinn.“

Einar Orri Einarsson, miðjumaður Keflvíkinga fékk að líta rauða spjaldið í leiknum þegar hann fékk sitt annað gula spjald en Kristján var hins vegar ekki ánægður með dómarann í fyrra skiptið sem Einar fékk spjald.

„Þetta var mjög klaufalegt hjá honum að fá á sig seinna spjaldið. En ég er ekkert rosalega hrifinn af fyrra spjaldinu. Það er mjög auðvelt að dæma á Einar og mjög auðvelt að gefa honum spjald. Menn mega aðeins hugsa sig um,“ sagði Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert