Steinn: Þetta var ekki boðlegt

Guðmundur Steinn Hafsteinsson, til hægri, og Jóhannes Karl Guðjónsson, til …
Guðmundur Steinn Hafsteinsson, til hægri, og Jóhannes Karl Guðjónsson, til vinstri, í baráttu við Fjölnismanninn Gunnar Má Guðmundsson mbl.is/Golli

„Þetta var gífurlega dapurt af okkar hálfu,“ sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson fyrirliði Framara í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Fjölni, 1:3, á Laugardalsvellinum í kvöld. „Við fengum það sem við áttum skilið; sem var ekki neitt.“

Heimamenn voru langt frá sínu besta í kvöld og auðvelduðu Fjölnismönnum sigurinn með slakri spilamennsku sinni. Þá sagði Guðmundur Steinn að þeim hafi ekki tekist að fylgja eftir sóknaruppleggi Bjarna Guðjónssonar, þjálfara liðsins. 

„Varnarlega slapp þetta til fram að markinu þeirra en þetta var einstaklega dapurt þegar kom að einstaklingum liðsins,“ útskýrði Guðmundur Steinn. „Við ætluðum að gera allt aðra hluti í sóknarleiknum en við vorum að gera. Það virðist ekki hafa skilað sér út á völlinn. Þetta var bara ekki boðlegt.“ 

Næstu tveir leikir Fram eru á útivelli gegn FH og Stjörnunni en þau eru ósigruð í tveimur efstu sætum deildarinnar. „Við erum í þeirri stöðu að við verðum að ná í úrslit á móti annað hvort FH eða Stjörnunni. Það þýðir að við verðum að vera eitt af fyrstu liðunum til að leggja þau að velli. Þannig er veruleikinn og við verðum að gera það.“  

Guðmundur Steinn segir að hópurinn þurfi að þjappa sér saman eftir tapleikinn í kvöld. „Ég trúi ekki öðru en að við komum betur stemmdir og bjóðum upp á allt aðra spilamennsku í næsta leik, enda ekki hægt að fara niður á við eftir þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert