Dóra: Framtíðin mjög björt

„Við mættum þeim úti og unnum þá 2:1. Það var hörkuleikur og við búumst við svipuðum leik núna,“ sagði Dóra María Lárusdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, fyrir leikinn við Serbíu í undankeppni HM sem fram fer á Laugardalsvelli kl. 17 á morgun.

Ísland vann Ísrael af öryggi á laugardaginn, 3:0, þar sem sóknarleikur gestanna var afar takmarkaður. Dóra segir að annað verði uppi á teningnum á morgun.

„Þær eru með sterkari einstaklinga og sækja á fleiri mönnum, þannig að við megum búast við jafnari leik núna,“ sagði Dóra.

Ákveðin kynslóðaskipti eiga sér nú stað í landsliðinu en Þóra Helgadóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna og Freyr Alexandersson þjálfari skildi reynslumikla leikmenn eftir utan hóps fyrir leikina við Ísrael og Serbíu. Óreyndari leikmenn hafa í staðinn fengið tækifæri, til að mynda Sigrún Ella Einarsdóttir sem þreytti frumraun sína á laugardaginn.

„Þær hafa komið mjög vel inn. Það var virkilega gaman að spila með Sigrúnu Ellu í fyrsta leik sínum á laugardaginn, hún kom virkilega sterk inn. Ég held að framtíðin sé mjög björt,“ sagði Dóra, sem er herbergisfélagi Þóru markvarðar.

„Það verður skrýtið og erfitt að missa Þóru en sem betur fer eigum við marga góða markmenn svo að það ætti að leysast,“ sagði Dóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert