Gunnhildur Yrsa staðráðin í að sanna sig

„Það er frábært að vera komin aftur eftir meiðsli og ég ætla að nota þetta tækifæri til að sýna hvað ég get, og vinna þessa leiki,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir miðjumaður sem er komin aftur í íslenska landsliðið í knattspyrnu og lék sinn fyrsta landsleik í eitt og hálft ár í sigrinum á Ísrael um helgina.

Gunnhildur Yrsa sleit krossband í hné í þriðja sinn á ferlinum í fyrra en hefur jafnað sig af því og spilar á fullu með liði sínu Grand Bodö í norsku úrvalsdeildinni, en hún var áður hjá Arna/Björnar.

„Ég er að þjálfa og spila þarna, og nýt þess að spila 90 mínútur í hverjum leik. Þetta er alveg frábært til að koma mér í gang aftur eftir meiðslin og fá sjálfstraustið upp á nýtt,“ sagði Gunnhildur.

Ísland mætir Serbíu á morgun kl. 17 í síðasta leik sínum í undankeppni HM og Gunnhildur er klár í slaginn fyrir þann leik.

„Þær hafa nokkrar verið að spila hérna á Íslandi svo við vitum alveg hvað þær geta. Þetta verður erfiður leikur en við stefnum á að vinna sem er mikilvægt fyrir næstu undankeppni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert