Íslendingar skemmtilegri en Þjóðverjar

Sandra Galle, Elísa Viðarsdóttir landsliðskona, og Julia Leistner á Laugardalsvelli …
Sandra Galle, Elísa Viðarsdóttir landsliðskona, og Julia Leistner á Laugardalsvelli í dag. Sandra var með treyju Hólmfríðar Magnúsdóttur og Julia treyju Ólínu G. Viðarsdóttur. Ljósmynd/KSÍ: Hilmar Þór

Þýsku vinkonurnar Julia Leistner og Sandra Galle eru einhverjir dyggustu stuðningsmenn íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Þær voru mættar á Laugardalsvöll í dag til að fylgjast með æfingu landsliðsins fyrir leikinn gegn Serbíu á morgun, þann síðasta í undankeppni HM.

Þetta er önnur heimsókn þeirra Juliu og Söndru til landsins en síðast þegar þær komu mættu þær á nokkra leiki í Pepsi-deildinni. Leikurinn á morgun verður hins vegar fyrsti heimaleikur landsliðsins sem þær sjá. Þær hafa þó fylgt íslenska landsliðinu eftir frá vorinu 2012.

„Ég held að fyrsti leikurinn sem við sáum hafi verið gegn Svíum í Algarve-bikarnum fyrir tveimur árum. Í fyrra fórum við svo á alla leiki liðsins á EM í Svíþjóð og það var mjög skemmtilegt,“ sagði Julia við mbl.is í dag.

Þetta hefðum við aldrei fengið í Þýskalandi

Julia og Sandra spila báðar fótbolta með neðrideildarliðinu FFC Hof í Þýskalandi, en hvað kemur til að þær vinkonur skuli fylgjast svo vel með íslenska landsliðinu?

„Það er heillandi að svona lítil þjóð skuli eiga svona rosalega gott lið. Maður sér líka hvað íslensku stelpurnar hafa gaman af því að spila fótbolta. Þetta er ekki eins og hjá þýska landsliðinu, þar sem allir eru svo alvarlegir og stífir. Þýska knattspyrnusambandið myndi heldur aldrei leyfa okkur að fylgjast með síðustu æfingu fyrir leik eins og við fáum að gera hérna,“ sögðu þær, og þær munu fylgjast áfram með íslenska landsliðinu.

„Við munum áfram reyna að sjá sem flesta leiki. Það verður að koma í ljós hverjir andstæðingarnir verða í næstu undankeppni en við höfum mjög gaman af því að fylgjast með liðinu,“ sagði Julia, en þær kváðust ekki eiga sér neinn uppáhaldsleikmann í íslenska liðinu. Allar íslensku landsliðskonurnar væru góðar.

Leikur Íslands og Serbíu hefst kl. 17 á morgun á Laugardalsvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert