Sara: Líður ennþá eins og að Þóra komi aftur

„Við viljum fara í alla leiki til að vinna og enda eins ofarlega í riðlinum og við getum,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu fyrir æfingu liðsins á Laugardalsvelli í dag, í aðdraganda leiksins við Serbíu á morgun kl. 17 en það er lokaleikur Íslands í undankeppni HM.

Ísland vann Ísrael á laugardaginn af öryggi, 3:0, en draumurinn um að komast á HM er úr sögunni. Sara er þó staðráðinn í að landa sigri á morgun.

„Við höfum nokkrum sinnum spilað við þær og þær eru alltaf að verða betri og betri. Þær hafa þróað lið sitt mjög vel og eru bara fínar í fótbolta. Þær eru með einstaklinga sem eru tæknilega mjög góðir og lið sem er alltaf að bæta sig. Þetta er mun betra lið en Ísrael,“ sagði Sara.

Hún þarf nú líkt og aðrir leikmenn liðsins að kveðja Þóru Helgadóttur sem hefur ákveðið að hætta með landsliðinu eftir leikinn á morgun.

„Þetta er svolítið óraunverulegt, eftir að hafa núna verið með henni í landsliðinu í nokkur ár, að hún sé að hætta. Ég var líka búin að vera með henni hjá Malmö í þrjú ár og mér finnst ennþá eins og að hún sé bara að fara að koma tilbaka. Það verður mjög skrýtið þegar hún leggur skóna á hilluna, og bara, hverfur,“ sagði Sara létt.

„Það hefur verið mikill heiður að spila með einum besta markmanni í heimi. Þetta hefur verið frábær tími,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert