Dagný: Sýnum okkar bestu hliðar

„Við eigum eftir að sakna Þóru og vonandi kemur fólk á völlinn og kveður hana með okkur,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, markahæsti leikmaður Íslands í undankeppni HM, fyrir leikinn við Serbíu sem fram fer á Laugardalsvelli í dag kl. 17.

Leikurinn er kveðjuleikur Þóru Bjargar Helgadóttur markvarðar og jafnframt síðasti leikur undankeppninnar en Dagný hefur skorað 5 mörk í 9 leikjum hennar, nú síðast gegn Ísrael á laugardaginn. Hún segir Serbíu talsvert sterkara lið en það ísraelska.

„Þær eru með betri einstaklinga en Ísrael, við þekkjum nokkrar sem hafa spilað á Íslandi og aðrar spila í sterkum deildum eins og þeirri þýsku svo þær eru með þrusufínt lið,“ sagði Dagný en Ísland vann 2:1-sigur úti í Serbíu í fyrra.

„Þær áttu alveg nokkur færi þegar við mættum þeim í Serbíu þannig að þetta verður jafnari leikur [en gegn Ísrael] þó að ég haldi nú að við eigum að vera betri,“ sagði Dagný.

„Við reynum að sýna okkar bestu hliðar og þetta er mikilvægur undirbúningur fyrir okkur fyrir næstu undankeppni EM. Þetta verður flottur leikur,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert