Skoraði í fyrsta byrjunarliðsleiknum

Arna Sif Ásgrímsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu báðar gegn Serbum …
Arna Sif Ásgrímsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu báðar gegn Serbum í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

Akureyringurinn Arna Sif Ásgrímsdóttir var í fyrsta skipti í byrjunarliðinu hjá A-landsliðinu þegar Ísland burstaði Serbíu 9:1 í lokaleik sínum í undankeppni HM á Laugardalsvellinum í dag. Arna lék sem miðvörður og tókst að skora eitt marka Íslands eftir aukaspyrnu Dóru Maríu Lárusdóttur og kom Íslandi í 4:0. 

„Það kom mér mjög á óvart að fá tækifæri í byrjunarliðinu og það var ótrúlega skemmtilegt enda alltaf sérstakt að spila landsleiki og ávallt gaman að skora,“ sagði Arna þegar mbl.is ræddi við hana þegar úrslitin lágu fyrir. Hún bjóst ekki við slíkum stórsigri sem raun varð á. „Nei alls ekki. Við bjuggumst við þeim talsvert sterkari en aftur á móti var þetta toppdagur hjá okkur og þá getur allt gerst.“

Það setti mikinn svip á leikinn að um kveðjuleik var að ræða hjá markverðinum Þóru B. Helgadóttur. „Já það gerði það. Við vildum enda þessa keppni virkilega vel og spila vel í hennar síðasta leik og við gerðum það,“ sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert