Þóra skoraði í kveðjuleiknum

Ísland burstaði Serbíu 9:1 í lokaleik sínum í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í dag. Markvörðurinn Þóra B. Helgadóttir skoraði eitt markanna úr vítaspyrnu í kveðjulandsleik sínum. 

Ísland tryggði sér með þessu annað sætið í riðlinum. Sviss fékk 28 stig, Ísland 19, Danmörk 18, Ísrael 12, Serbía 10 en Malta ekkert stig. Ísrael vann mjög óvæntan útisigur í Danmörku í dag, 1:0, og Sviss vann Möltu 5:0 á útivelli.

Harpa Þorsteinsdóttir skoraði strax á 7. mínútu og Glódís Perla Viggósdóttir á 10. mínútu. Rakel Hönnudóttir bætti við þriðja markinu á 26. mínútu og staðan var 3:0 í hálfleik.

Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark og kom Íslandi í 4:0 á 58. mínútu en tveimur mínútum síðar minnkaði Jelena Cubrilo muninn fyrir Serba í 4:1 eftir sendingu frá Vesnu Elísu Smiljkovic, fyrirliða serbneska liðsins og leikmanni ÍBV.

Dagný Brynjarsdóttir skoraði, 5:1, á 63. mínútu og á 67. mínútu var komið að Þóru B. Helgadóttur þegar dæmd var vítaspyrna á Serba en boltinn fór í hönd varnarmanns þegar Rakel sendi fyrir markið. Þóra fór á vítapunktinn og þrumaði boltanum uppundir þverslána, 6:1.

Harpa og Rakel skoruðu hvor um sig sitt annað mark á 71. og 73. mínútu og staðan orðin 8:1. Það var síðan Dagný sem átti lokaorðið með sínu öðru marki á 84. mínútu, 9:1.

Ísland 9:1 Serbía opna loka
90. mín. Tveimur mínútum er bætt við venjulegan leiktíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert