Upp um 97 sæti á tveimur árum

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hafa heldur betur gert sig …
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hafa heldur betur gert sig gildandi á knattspyrnusviðinu. mbl.is/Golli

Með því að ná 34. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA sem gefinn var út í morgun er íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu búið að fara upp um 97 sæti á rúmum tveimur árum.

Ísland fór lægst niður í 131. sæti af 207 þjóðum á listanum í apríl, maí og júní árið 2012 en síðan þá hefur leiðin legið ógnarhratt upp á við. Sögulegur árangur í síðustu undankeppni HM varð til þess að Ísland sat í 49. sæti í lok síðasta árs.

Sigurinn á Tyrklandi í fyrsta leik nýrrar undankeppni EM nú fyrir skömmu fleytir liðinu svo enn hærra upp, en það fór upp um 12 sæti frá því í ágúst og alla leið upp í 34. sæti, þar sem liðið situr ásamt Serbíu. Þetta er besti árangur Íslands frá upphafi. Ísland er auk þess í 21. sæti ásamt Serbíu ef horft er aðeins til Evrópuþjóða, sem eru 54 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert