Stjarnan slapp með skrekkinn og jafnaði FH

Dofri Snorrason úr Víkingi sækir að marki Stjörnunnar í leiknum …
Dofri Snorrason úr Víkingi sækir að marki Stjörnunnar í leiknum í dag. mbl.is/Ómar

Stjarnan gefur ekkert eftir í baráttunni um Íslandsmeistaratitil karla í knattspyrnu en í dag vann liðið 1:0-sigur á Víkingi R. í Víkinni með marki Rolf Toft á 9. mínútu. Víkingar sóttu mun meira eftir markið og fengu mörg færi en tókst ekki að finna leiðina framhjá Ingvari Jónssyni sem átti mjög góðan leik í marki Stjörnunnar.

Víkingur er eftir sem áður í 4. sæti deildarinnar með fimm stiga forskot á Val, nú þegar þrjár umferðir eru eftir af Pepsi-deildinni. Stjarnan er hins vegar jöfn FH á toppi deildarinnar, en FH er þó með mun betri markatölu. Stjarnan og FH mætast í Kaplakrika í lokaumferðinni.

Leikurinn í Víkinni í dag var bráðfjörugur þrátt fyrir að aðeins eitt mark hafi litið dagsins ljós. Toft skoraði markið úr frábærri skyndisókn eftir sendingu Ólafs Karls Finsen. Eftir markið var fyrri hálfleikurinn að mestu í eigu Víkinga. Þeir sóttu stíft og fengu tvö sannkölluð dauðafæri með mínútu millibili þegar tíu mínútur voru til hálflefiks. Í bæði skiptin varði Ingvar Jónsson frábærlega. Atli Jóhannsson kom inná miðjuna hjá Stjörnunni á 40. mínútu og Arnar Már Björgvinsson fór af velli, og við það náðu Stjörnumenn að verjast betur fram að leikhléi.

Stangarskot og rautt spjald

Víkingar sóttu þó áfram mun meira í seinni hálfleik og fengu nokkur ágæt færi en næst því að skora komust þeir á 90. mínútu þegar Dofri Snorrason átti skot í stöng og út. Stjörnumenn fóru í skyndisókn strax í kjölfarið og komst Heiðar Ægisson einn gegn markverði en Alan Lowing braut á honum og var réttilega rekinn af velli.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is í textalýsingu sem og í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI. Viðtöl koma inn á eftir og fjallað verður um leiki kvöldsins í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Víkingur R. 0:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Víkingur R. fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert