Vilja að rautt spjald Lowing verði fellt niður

Alan Lowing hefur verið mjög mikilvægur fyrir Víkinga í sumar.
Alan Lowing hefur verið mjög mikilvægur fyrir Víkinga í sumar. mbl.is/Eggert

Knattspyrnudeild Víkings R. ætlar að fara fram á það að rauða spjaldið sem skoski miðvörðurinn Alan Lowing fékk að líta í leiknum gegn Stjörnunni í gærkvöld verði fellt niður.

Þetta var í annað sinn í sumar sem Lowing fær rautt spjald og hann ætti því að vera á leið í tveggja leikja bann sem yrði mikið áfall fyrir Víkinga í baráttunni um Evrópusæti.

Lowing fékk rauða spjaldið fyrir brot á Heiðari Ægissyni sem var sloppinn einn gegn markverði. Hins vegar sýndu sjónvarpsupptökur að Heiðar var rangstæður þegar hann fékk sendingu fram völlinn. Því vilja Víkingar að rauða spjaldið verði fellt niður og ætla að fara fram á það, samkvæmt því sem haft er eftir Haraldi Haraldssyni framkvæmdastjóra á vefmiðlinum Fóbolta.net.

„Við munum skila greinargerð til KSÍ um þetta mál í dag og óska eftir því að rauða spjaldið verði fellt niður. Það gengur ekki að svona augljós mistök aðstoðardómara geti haft þetta miklar afleiðingar,“ sagði Haraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert