Reynir S. og Völsungur féllu eftir háspennu

Afturelding verður áfram í 2. deild á næsta ári.
Afturelding verður áfram í 2. deild á næsta ári.

Það var mikil spenna í fallbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í dag en að lokum voru það Reynir Sandgerði og Völsungur sem féllu niður í 3. deild.

Völsungur var í neðsta sætinu fyrir umferðina en vann Sindra á Höfn 3:1. Reynismenn gerðu líka vel í að ná 2:2-jafntefli við topplið Fjarðabyggðar eftir að hafa lent 2:0 undir. Þetta dugði þó ekki til.

Völsungur og Reynir enduðu bæði með 22 stig rétt eins og Afturelding sem gerði markalaust jafntefli við Ægi á heimavelli. Mosfellingar voru hins vegar með langbestu markatöluna og héldu sér því uppi. Njarðvík hélt sæti sínu og endaði með 24 stig með því að leggja Hugin að velli á útivelli, 4:2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert