Dean: Erfiðar aðstæður fyrir bæði lið

KR og ÍBV skildu jöfn í bráðfjörugum leik í 20. umferð Pepsi-deildarinnar þegar þau mættust í Frostaskjólinu. Lokatölur urðu 3:3 en hávaðarok og rigning á köflum setti sinn svip á leikinn.

„Það er erfitt veður á þessum árstíma en það er sama fyrir bæði lið, erfitt að verjast boltanum í teignum, erfitt fyrir markmenn og erfitt að spila fótbolta. Sex marka leikur hlýtur hins vegar að vera gaman fyrir áhorfendur,“ sagði Dean Martin, spilandi aðstoðarþjálfari Eyjamanna, í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Eyjamenn komust í 3:1 áður en KR jafnaði, en liðið er ekki enn sloppið við fall.

„Við erum að berjast fyrir sætinu í deildinni og þetta er mikilvægt stig. Auðvitað svekkjandi miðað við stöðuna en líka svekkjandi fyrir þá að vera 3:1-undir á móti okkur. En við vorum ekki nógu klókir og í lokin er jafntefli kannski sanngjarnt,“ sagði Dean Martin, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert