Haukur: Fáránlegt mark hjá honum

„Þetta var hörkuleikur, mikil barátta og mikið um tæklingar enda bauð veðrið ekki upp á neinn glimrandi fótbolta,“ sagði Haukur Heiðar Hauksson, bakvörður KR, í samtali við mbl.is eftir 3:3-jafntefli liðsins við ÍBV í 20. umferð Pepsi-deildarinnar í dag þar sem veðrið setti heldur betur strik í reikninginn.

ÍBV komst í 3:1 áður en KR-ingar komu til baka, en annað mark Eyjamanna var sérlega glæsilegt þegar Jonathan Glenn skoraði með bakfallsspyrnu í bláhornið.

„Þetta var fáránlegt mark, hjólhestaspyrnan sem hann skoraði. Ég var bara að horfa á boltann og  bíða eftir að hann færi í innkast en hann náði einhvern veginn að teygja sig. Að fá á sig þrjú mörk er auðvitað leiðinlegt en í þessu veðri gat boltinn endað hvar sem er,“ sagði Haukur Heiðar, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði þar sem hann talar meðal annars um að vera kominn í landsliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert