Jafnt hjá KR og ÍBV í sex marka leik

Baldur Sigurðsson skallar frá marki KR í leiknum við ÍBV …
Baldur Sigurðsson skallar frá marki KR í leiknum við ÍBV í dag. mbl.is/Árni Sæberg

KR og ÍBV létu veðrið ekki á sig fá og buðu upp á stórskemmtilegan leik þegar liðin mættust í 20. umferð Pepsi-deildarinnar í Frostaskjóli í dag. Lokatölur urðu 3:3 og Eyjamenn eru því ekki enn að fullu sloppnir  við fall.

Eyjamenn byrjuðu mun betur og þeim gekk betur að ná upp spili í rokinu í Frostaskjólinu.  Þeir komust yfir strax á 8. mínútu með marki Jonathans Glenn úr vítaspyrnu eftir að Víðir Þorvarðarson var felldur innan teigs.

Heimamenn unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn þegar leið á hálfleikinn og á 44. mínútu bar það ávöxt þegar Gary Martin skoraði af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Hauks Heiðars Haukssonar frá hægri. 1:1 í hálfleik.

KR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti en það var hins vegar Glenn sem kom Eyjamönnum yfir á ný með engu smámarki. Eftir fyrirgjöf Gunnars Þorsteinssonar skoraði Glenn með glæsilegri bakfallsspyrnu í bláhornið.

Þetta sló KR-inga út af laginu og Gunnar Þorsteinsson skoraði þriðja mark Eyjamanna með skalla eftir hornspyrnu á 68. mínútu. KR-ingar vöknuðu til lífins á ný eftir það og Gary Martin minnkaði muninn eftir hornspyrnu frá Óskari Erni þegar rúmar tíu mínútur voru eftir og því von á fjörugum lokakafla.

Það gekk heldur betur eftir og Emil Atlason jafnaði metin á 87. mínútu með hörkuskalla eftir fyrirgjöf frá Óskari Erni. KR hélt áfram að pressa undir lokin en allt kom fyrir ekki, lokatölur 3:3. KR er enn í þriðja sætinu, nú með 37 stig, en ÍBV er með 22 stig í neðri hlutanum, fjórum stigum frá fallsæti.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Fylgst var með öllum leikjum dagsins í Pepsi-deild karla í knattspyrnu hér á mbl.is í ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI.

KR 3:3 ÍBV opna loka
90. mín. KR fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert