Rúnar næstur hjá Lilleström?

Rúnar Kristinsson hefur verið afar sigursæll með KR síðan hann …
Rúnar Kristinsson hefur verið afar sigursæll með KR síðan hann tók við liðinu sumarið 2010 - orðið bikarmeistari þrisvar og Íslandsmeistari tvisvar. mbl.is/Golli

Líklegt þykir að Magnus Haglund, þjálfari norska knattspyrnufélagsins Lilleström, flytji sig um set í haust og fari aftur heim til Svíþjóðar eftir að hafa verið í Noregi frá árinu 2012.

Haglund ætlar að ákveða sig fyrir 10. október og í samtali við Verdens Gang segir hann að 1-2 félög hafi óskað eftir viðræðum við sig. Undir stjórn Haglund hefur Lilleström gengið vel í ár og er liðið í baráttu um verðlaunasæti í norsku úrvalsdeildinni, eftir að hafa síðast náð slíku sæti árið 2001.

Haglund á hins vegar fjölskyldu í Svíþjóð og það hefur sitt að segja um það að hann íhugi nú að yfirgefa Lilleström. Gangi það eftir segir VG að Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, komi sterklega til greina sem arftaki Haglund.

Rúnar var lykilleikmaður hjá Lilleström árin 1997-2000 áður en hann gekk í raðir Lokeren. Ásamt honum eru Kent Bergersen, aðstoðarþjálfari Aalesund, og Morten Tandberg, þjálfari Bærum, nefndir til sögunnar.

„Við vonumst til að Haglund verði áfram. Ef það gengur ekki eftir er ég viss um að við finnum góða lausn. Ég er búinn að fara nokkrum sinnum yfir listann. Ég get ekki gefið upp nein nöfn en ég er með nokkra kandídata í huga,“ sagði Torgeir Bjarmann, yfirmaður íþróttamála hjá Lilleström.

Rúnar var einnig sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá Lilleström fyrir tveimur árum þegar Haglund var ráðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert