Stjarnan tvöfaldur meistari 2014

Stjarnan tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu annað árið í röð, og í þriðja sinn á fjórum árum, með því að vinna Aftureldingu 3:0 í næstsíðustu umferð Pepsi-deildarinnar. Stjarnan er með sex stiga forskot á Breiðablik fyrir lokaumferðina.

Stjarnan var lengi að brjóta ísinn gegn Aftureldingu á heimavelli sínum í dag og gestirnir fengu dauðafæri til að komast yfir í seinni hálfleiknum en Sandra Sigurðardóttir varði vel frá Stefaníu Valdimarsdóttur. Í kjölfarið skoraði Harpa Þorsteinsdóttir fyrsta mark leiksins, hún bætti svo við skallamarki og fullkomnaði þrennuna með glæsilegu skoti af 40 metra færi.

Stjarnan vann tvöfalt á þessu tímabili því áður hafði liðið tryggt sér bikarmeistaratitilinn þar sem Harpa skoraði einnig þrennu í úrslitaleiknum. Hún er langmarkahæst í deildinni og á gullskóinn vísan.

Breiðablik vann ÍA, 3:1 og situr sem fastast í 2. sæti deildarinnar og Þór/KA komst upp í 3. sætið í kvöld með 1:0-sigri á Fylki.

Spennan er ekki farin úr deildinni, því það mun ekki ráðast fyrr en í lokaumferðinni hvort það kemur í hlut FH eða Aftureldingar að falla með ÍA. FH tapaði í kvöld fyrir Selfossi, 4:1.

Úrslit 17. umferðar:

Stjarnan - Afturelding, 3:0
Harpa Þorsteinsdóttir 67., 74., 78.

FH - Selfoss, 1:4
Margrét Sveinsdóttir 48. - Eva Lind Elíasdóttir 36., 55. Guðmunda Brynja Óladóttir 52., Kristrún Rut Antonsdóttir 83.

Valur - ÍBV, 1:3
Dóra María Lárusdóttir 49. - Bryndís Hrönn Kristinsdóttir 31., Shaneka Gordon 67., Vesna Smiljkovic 69.

Breiðablik - ÍA, 3:1
Rakel Hönnudóttir 24., Fanndís Friðriksdóttir 45. (víti), Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir 80. - Guðrún Karitas Sigurðardóttir 90.

Fylkir - Þór/KA, 0:1
Lillý Rut Hlynsdóttir 50.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert