Rúnar: Staðan er nákvæmlega eins

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta var eiginlega sanngjarnt jafntefli eins og leikurinn þróaðist,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar við mbl.is eftir markalaust jafntefli gegn Fjölni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í Grafarvogi í dag.

Jafnteflið þýðir að FH er með tveggja stiga forskot á Stjörnuna á toppi deildarinnar þegar tveimur umferðum er ólokið en Stjarnan tekur á móti Fram og FH heimsækir Val í 21. umferðinni. FH og Stjarnan mætast svo í Kaplakrika í lokaumferðinni og það gæti orðið hreinn úrslitaleikur liðanna.

„Já, þeir fengu betri færi," samsinnti Rúnar. „En við vorum hættulegir þegar við komumst upp kantana við áttum hættulegar fyrirgjafir þar sem boltinn rúllaði í gegnum teiginn hjá þeim án þess að við næðum að nýta það. 

Mér fannst við spila ágætlega úti á vellinum en þegar við komum að síðasta þriðjungnum vorum við í tómum vandræðum og spiluðum inná þeirra þrengsta svæði þar sem þeir voru mjög þéttir fyrir. Í staðinn hefðum við þurft að fara oftar upp kantana, eins og við erum flinkir í. En þetta þýðir einfaldlega að við höfum allt í okkar höndum ennþá," sagði Rúnar.

En verður þú ekki að líta á þetta sem tvö töpuð stig í stóra samhenginu, í þeirri baráttu sem þið eigið í við FH um titilinn?

„Jú, auðvitað vildum við alltaf fá þrjú stig en það er sama hvernig þetta hefði farið, við hefðum alltaf orðið að vinna leikina tvo sem eru eftir. Staðan er þessvegna nákvæmlega eins í dag,“ sagði Rúnar.

Hvernig er ástandið á hópnum hjá þér, eru allir tilbúnir í þennan lokaslag sem er framundan?

„Já, þetta er fínt núna, sérstaklega þar sem við fáum gott hlé á milli leikja. Stjarnan hefur aldrei áður verið í þessari stöðu, við viljum þetta alveg rosalega mikið, og það eitt er gríðarleg hvatning fyrir þessa drengi, og fyrir allt félagið. Það eru allir tilbúnir til að leggja á sig það sem þarf til að þetta gangi eftir.

Svo erum við með þessa mögnuðu stuðningsmenn sem hafa hjálpað okkur gríðarlega og þeir munu fjölmenna þegar við mætum Fram næsta sunnudag. Þar þurfum við að ná góðum úrslitum, við eigum fyrir höndum hörkuleik gegn mjög erfiðu liði Fram sem er að berjast fyrir lífi sínu, alveg eins og hérna á móti Fjölni, og á meðan á FH erfiðan útileik gegn Val," sagði Rúnar Páll Sigmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert