Tel að þetta sé höfðinglega boðið

Jón Rúnar Halldórsson fagnar meistaratitli með FH.
Jón Rúnar Halldórsson fagnar meistaratitli með FH. hag / Haraldur Guðjónsson

„Miðað við umræðuna ætti að vera barnaleikur að koma út 6.000 miðum en það hefur aldrei þótt góð latína að selja skinnið áður en búið að er skjóta björninn. Það er mikil ákefð í heitustu stuðningsmönnunum sem vilja fá miða en þetta er ansi mikið magn. Við erum þó alla vega búnir undir það að taka við þessum fjölda,“ sagði Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH við Morgunblaðið.

FH-ingar hafa hafið innanbúðarforsölu á úrslitaleikinn við Stjörnuna um Íslandsmeistaratitil karla í knattspyrnu á laugardaginn. Almenn sala fer fram á morgun og föstudag, en engir miðar verða til sölu á leikdag. Seldir verða 3.000 miðar í sæti og að minnsta kosti 3.000 miðar til viðbótar verða til sölu í stæði, þó að hugsanlegt sé að yfir 6.000 miðar verði í boði, að sögn Jóns: „Það verður hægt að koma einhverjum fyrir á bak við vestara markið, fjær Garðabænum. Það eru ýmsir kostir í stöðunni ef vel gengur að selja miða.“

Stjarnan fær 1.000 miða til sölu í innanbúðarforsölu hjá sér, og miðað við viðbrögð á samskiptamiðlum í gær virtust Garðbæingar óánægðir með sinn hlut. Jón er undrandi á því.

„Stjarnan fær 25% af þeim sætum sem eru í boði, og í heildina 14-15% af þeim miðum sem eru í boði. Þetta er hærra hlutfall en gerist víðast annars staðar. Við töldum okkur ekki vera að móðga neinn með þessu, og verðum auðvitað að hugsa um okkar fólk. Þetta eru fleiri miðar en hægt er að selja í alla stúkuna í Garðabæ, til dæmis. Mér finnst þetta því vera höfðinglega boðið,“ sagði Jón, og bætir við að Garðbæingar geti svo líkt og aðrir keypt miða í almennri forsölu á morgun og föstudag eins og framboð leyfi. Ekki verði spurt um heimilisfang eða því um líkt. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert