Þroskaðri og afslappaðri eftir að sonurinn fæddist

Harpa Þorsteinsdóttir með syni sínum eftir að Íslandsmeistaratitillinn var í …
Harpa Þorsteinsdóttir með syni sínum eftir að Íslandsmeistaratitillinn var í höfn á dögunum. mbl.is/Golli

„Ég er mjög stolt. Það er gaman að fá svona viðurkenningu þegar það hefur gengið vel, þó að margar aðrar eigi þetta líka skilið, sérstaklega í mínu liði,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir, markadrottning úr Stjörnunni, sem í gær var valin besti leikmaður Pepsi-deildarinnar á nýafstaðinni leiktíð.

Valið kom engum á óvart enda hefur Harpa farið á kostum fyrir lið Stjörnunnar sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari. Harpa var þó hógværðin uppmáluð þegar hún settist niður með blaðamanni í gær, og benti á að margir liðsfélaga hennar væru vel að því komnir að vera í hennar sporum.

„Við getum til dæmis nefnt Söndru [Sigurðardóttur] í markinu sem hefur haldið hreinu í ellefu leikjum og átt mjög gott tímabil. Við eigum varnarmenn sem hafa stimplað sig inn í A-landsliðið, kantmenn líka, og þetta hefur verið mjög gott ár hjá Stjörnuliðinu,“ sagði Harpa.

Stoltar af titilvörslunni

Eftir nánast fullkomið tímabil í fyrra, þar sem eini tapleikurinn kom gegn Þór/KA í undanúrslitum bikarkeppninnar, þegar Harpa tók út leikbann, bætti Stjarnan um betur í ár og tók tvennuna með yfirburðum. Liðið varð fyrst Íslandsmeistari árið 2011, aftur í fyrra og í þriðja sinn nú. Á þessum tíma hafa einnig fylgt tveir bikarmeistaratitlar.

„Við höfum áður reynt að verja titilinn og það tókst ekki. Það má því í raun segja að þetta hafi verið tveggja ára gamalt markmið, við vorum staðráðnar í að afreka þetta og erum mjög stoltar af því,“ sagði Harpa sem skoraði 27 mörk í deildinni í sumar, 15 mörkum fleiri en næstu leikmenn, auk þess að skora þrennu í bikarúrslitaleiknum. Hún varð einnig markadrottning í fyrra með 28 mörk.

Sjá viðtalið við Hörpu í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert