Harpa: Sumarið í sumar meira krefjandi

Harpa Þorsteinsdóttir í landsleik.
Harpa Þorsteinsdóttir í landsleik. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Harpa Þorsteinsdóttir, landsliðskona úr Stjörnunni, var í kvöld valin besti leikmaður Íslandsmótsins í knattspyrnu annað árið í röð. 

Flest gekk upp hjá Hörpu í sumar sem varð langmarkahæst í deildinni og Stjarnan vann tvöfalt, deild og bikar. 

„Það er alltaf erfitt að bera saman tímabil. Við áttum virkilega gott tímabil í fyrra því þá töpuðum við ekki leik í deildinni. Núna náðum við að landa báðum titlum og að halda titli. Þetta sumar var meira krefjandi því allir vilja taka stig gegn ríkjandi meisturum. En þetta var jafn gaman að ná þessum titlum.“

Harpa segist ekki vera á leiðinni erlendis nema verulega gott tilboð berist. „Það verður að koma í ljós. Ég hef gefið það út að ég er mjög ánægð hérna heima og mitt líf á Íslandi er gott. Það þarf því mikið að gerast til þess að ég fari út en ég hef alls ekki lokað á það heldur,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir besti leikmaður Pepsí-deildar kvenna í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert