Strákarnir áfram á EM eftir jafntefli við Ítali

Þorlákur Árnason þjálfar U17 ára lið Íslands.
Þorlákur Árnason þjálfar U17 ára lið Íslands. mbl.is/Golli

Íslenska drengjalandsliðið í knattspyrnu er komið í milliriðil Evrópukeppninnar eftir jafntefli gegn Ítölum, 1:1, í lokaumferðinni sem var leikin í Moldóvu í dag.

Ítalir unnu þar með riðilinn og fengu 7 stig, Íslendingar voru með 5 og fylgja þeim áfram. Moldóva fékk 4 stig og gæti komist áfram en nokkur lið með bestan árangur í þriðja sæti ná því. Armenar ráku lestina, án stiga.

Máni Austmann Hilmarsson, leikmaður FC Köbenhavn í Danmörku, kom Íslendingum yfir á fyrstu mínútu síðari hálfleiks. Allt stefndi í sigur íslensku strákanna en Patrick Cutrone náði að jafna fyrir Ítali fjórum mínútum fyrir leikslok.

Mikil spenna var á lokamínútunum því Moldóva var komin í 4:0 gegn Armeníu á sama tíma og hefði náð öðru sætinu af íslenska liðinu, ef Ítalir hefðu skorað sigurmark í lokin.

Íslensku strákarnir leika í milliriðli keppninnar seint í vetur en þar er spilað um sæti í lokakeppninni, þar sem sextán lið leika í fyrsta sinn. Hingað til hafa átta lið leikið til úrslita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert