ÍBV nógu spennandi til að koma heim

Jóhannes Harðarson.
Jóhannes Harðarson. Ljósmynd/kxweb.no

Skagamaðurinn Jóhannes Þór Harðarson hefur ákveðið að snúa aftur í efstu deild karla í knattspyrnu eftir fjórtán ára dvöl erlendis.

Jóhannes var í hópi bestu leikmanna í efstu deild á Íslandi um aldamótin en er nú hættur að spila og hefur snúið sér að þjálfun. Hann skrifaði í gær undir þriggja ára samning við ÍBV og stýrir karlaliði félagsins í Pepsi-deildinni næsta sumar. Tekur hann við Eyjaliðinu af Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, fyrrverandi samherja sínum hjá ÍA, sem ákvað að láta af störfum eftir tímabilið. Jóhannes mun flytja til Eyja og hafa þar fasta búsetu að því er fram kom í fréttatilkynningu frá ÍBV í gær.

„Við erum náttúrlega búin að vera úti núna í þrettán, fjórtán ár og þegar svo langur tími er liðinn var ekkert sjálfgefið að við kæmum heim en þetta var þess eðlis, og það spennandi, að við vildum alla vega kanna þetta og skoða. Úr varð að ég gerði samning og nú líst okkur bara mjög vel á,“ sagði Jóhannes við fjölmiðlamenn að undirskrift lokinni í gær.

Jóhannes hefur umtalsverða reynslu sem leikmaður. Hann lék 75 leiki fyrir Skagamenn í efstu deild áður en hann hélt í atvinnumennsku til Hollands í upphafi árs 2001, með tilheyrandi raski fyrir þáverandi samstarfsfólk hans á mbl.is!

Jóhannes lék fyrst í háskólabænum Maastricht sem nafntogaður er í tengslum við samninga Evrópusambandsins. Þaðan færði Jóhannes sig til Groningen sem á þeim tíma var með býsna sterkt lið í efstu deild í Hollandi. Jóhannes fór til Noregs árið 2004 og hefur verið í Noregi þar til nú. Jóhannes spilaði til ársins 2010 en hefur einbeitt sér að þjálfun síðustu árin. Hann var hjá Start í Noregi á árunum 2004 til 2008 og naut þar nokkurrar velgengni um tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert