Heim á meðan ég geri gagn

Hólmar Örn Rúnarsson í baráttu við Blikann Ellert Hreinsson.
Hólmar Örn Rúnarsson í baráttu við Blikann Ellert Hreinsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er bara búinn að eiga fjögur góð ár hjá FH. Planið var alltaf að koma einhvern tíma aftur til Keflavíkur, á meðan ég gæti eitthvað í fótbolta og eitthvert gagn yrði í mér,“ sagði miðjumaðurinn öflugi Hólmar Örn Rúnarsson sem ákveðið hefur að ganga aftur til liðs við uppeldisfélag sitt, Keflavík. Hann kemur til liðsins frá FH þar sem hann varð Íslandsmeistari árið 2012.

Hólmar Örn lék fyrstu leiki sína fyrir Keflavík árið 2000 og á að baki 162 deildarleiki fyrir félagið sem hann lék með allt fram til ársins 2011, ef undan er skilið eitt ár hjá Silkeborg í Danmörku árið 2007.

„Það var allt eins líklegt að ég tæki þetta skref eftir tímabilið í fyrra en ég spilaði mjög lítið það tímabil vegna meiðsla og fannst ég skulda bæði mér og FH-ingum eitt gott tímabil í viðbót. Það er ekkert auðvelt að yfirgefa FH. Þetta er góður klúbbur og hrikalega skemmtilegir strákar og þjálfarar. Það er gríðarlega erfitt að yfirgefa þá. Að sama skapi er gott að koma til Keflavíkur og ég ætla að vona að ég geti hjálpað til við að taka einhver skref upp töfluna,“ sagði Hólmar Örn, en Keflvíkingar höfnuðu í 8. sæti Pepsi-deildarinnar í haust eftir harða fallbaráttu. FH-ingar börðust hins vegar um Íslandsmeistaratitilinn fram á lokasekúndur mótsins en töpuðu fyrir Stjörnunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert