„Er með íslenska genið“

Baldur Sigurðsson
Baldur Sigurðsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í fyrradag er Baldur Sigurðsson, fyrirliði KR, til skoðunar hjá danska úrvalsdeildarliðinu SönderjyskE.

Baldur verður við æfingar fram til föstudags og eftir það kemur í ljós hvort honum verði boðinn samningur en hann ku hafa staðið sig vel á æfingum og skoraði í æfingaleik með varaliðinu gegn Vejle í vikunni.

„Hann er með íslenska genið sem maður verður að lofa fyrir dugnað og vilja. Við sáum til hans undir lok tímabilsins á Íslandi og þar að auki getur hann fyllt í nokkrar stöður sem er fyrirséð er að við þurfum að manna. Til dæmis er Hallgrímur að fara til OB um áramótin,“ segir Hans Jørgen Haysen íþróttastjóri SönderjyskE en landsliðsmaðurinn Hallgrímur Jónasson leikur með liðinu en yfirgefur það um áramótin.

„Hann er stór og sterkur og við sáum það í leiknum á móti Vejle að hann hefur ýmsa eiginleika. Hann hefur staðið sig vel hjá okkur. Við fáum ekki leikmenn til reynslu bara til gamans svo fari þetta allt eins vel og við vonum og við komust að samkomulagi er vel mögulegt að eitthvað gerist.“

Baldur skrifaði í byrjun mánaðarins undir nýjan fjögurra ára samning við KR og er samningsbundinn félaginu til ársins 2018. Hann kom til félagsins frá norska liðinu Bryne fyrir fimm árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert