Haukur Heiðar til liðs við AIK

Haukur Heiðar Hauksson.
Haukur Heiðar Hauksson. mbl.is/Eggert

Haukur Heiðar Hauksson hægri bakvörður KR-inga í knattspyrnu hefur skrifað undir samning við sænska úrvalsdeildarliðið AIK að því er fram kemur á vef félagsins í dag.

Samningur Hauks við AIK er til fjögurra ára og tekur hann gildi í janúar. Haukur kom til KR frá KA árið 2012 og hefur átt góðu gengi að fagna með vesturbæjarliðinu. Hann er 23 ára gamall. Hann er annar öflugi leikmaðurinn sem KR-ingar missa út atvinnumennsku á nokkrum dögum en í síðustu viku skrifaði fyrirliðinn Baldur Sigurðsson undir samning við danska liðið SönderjyskE.

„Þetta er draumur sem er að rætast nú þegar ég hef skrifað undir samning við eitt af stærstu liðum Svíþjóðar. Eitt af mínum markmiðum hefur alltaf verið það að komast út í atvinnumennsku og ég er ótrúlega glaður að það sé nú að verða að veruleika,“ segir Haukur Heiðar á vef AIK.

AIK varð í þriðja sæti á nýafstaðinni leiktíð en félagið hefur 11 sinnum hampað sænska meistaratitlinum, síðast árið 2009. Þá hefur liðið átta sinnum orðið sænskur bikarmeistari.

Haukur Heiðar verður þriðji Íslendingurinn sem spilar með AIK. Sá fyrsti var Hörður Hilmarsson sem lék með liðinu 1980-81 og Helgi Valur Daníelsson var í herbúðum liðsins frá 2010-13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert