Haukur: Mikill léttir að þetta sé í höfn

Haukur Heiðar Hauksson skýlir boltanum frá Jonathan Hendrickx í leik …
Haukur Heiðar Hauksson skýlir boltanum frá Jonathan Hendrickx í leik gegn FH. mbl.is/Ómar

„Þetta er búið að taka langan tíma, og tók lengri tíma en maður hafði vonast til,“ sagði Haukur Heiðar Hauksson við mbl.is í dag eftir að hafa gengið frá fjögurra ára samningi við sænska knattspyrnufélagið AIK.

Tímabilinu í Svíþjóð er svo að segja nýlokið og hafnaði AIK í 3. sæti deildarinnar. Haukur heimsótti félagið fyrr í mánuðinum en hefur æfingar með því eftir áramót þegar hann flytur út ásamt kærustu sinni.

„Þeir vildu fá mig út í byrjun nóvember en liðið er komið í frí núna. En það er virkilega mikill léttir að þetta sé komið í höfn. Ég var ekki lengi að semja við þá. Það voru aðallega félögin sem voru lengi að ná samkomulagi. Ég er mjög sáttur við mitt,“ sagði Haukur, sem er vel kunnugt um hve mikið veldi AIK er í Svíþjóð.

„Aðstæður þarna eru virkilega flottar. Þeir spila á 50 þúsund manna velli og fá yfirleitt um 20-25 þúsund manns á hvern leik, svo það verður ákveðin tilbreyting að upplifa það. Það verður bara gaman. Þó að félagið hafi ekki unnið deildina núna í nokkur ár þá hefur þetta alltaf verið talið eitt alstærsta félag Svíþjóðar,“ sagði Haukur, sem kemur til AIK frá KR en er uppalinn KA-maður.

Nánar er rætt við bakvörðinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert