Taskovic með Víkingum næsta sumar

Igor Taskovic í baráttu við Heiðar Ægisson.
Igor Taskovic í baráttu við Heiðar Ægisson. mbl.is/Eggert

Víkingur Reykjavík hefur náð samkomulagi við fyrirliðann Igor Taskovic um að hann spili með liðinu á næstu leiktíð í Pepsi-deildinni í knattspyrnu. Þetta eru afar góð tíðindi fyrir Víkinga en allt benti til að Taskovic væri hættur hjá félaginu af fjölskylduástæðum.

Taskovic var algjör lykilmaður í liði Víkinga á síðustu leiktíð þegar liðið náði 4. sæti og vann sér sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar á næstu leiktíð. Hann lék 21 leik í Pepsi-deildinni, ýmist sem miðvörður eða miðjumaður, og skoraði 3 mörk. Hann var einnig í liði Víkinga í fyrra og skoraði 5 mörk þegar liðið vann sér sæti í Pepsi-deildinni.

Víkingar reikna einnig með því að semja við danska markvörðinn Thomas Nielsen sem hefur verið við æfingar hjá félaginu undanfarið. Nielsen er 22 ára gamall, uppalinn í Álaborg en hefur leikið með Lindholm undanfarið í dönsku D-deildinni. Ekki náðust samningar við Ingvar Kale um að verja mark Víkings áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert