Vildu lækka laun Ingvars um 30%

Ingvar Þór Kale hefur varið mark Víkings síðustu tvö ár, …
Ingvar Þór Kale hefur varið mark Víkings síðustu tvö ár, á miklum uppgangstíma liðsins. mbl.is/Ómar

Markvörðurinn Ingvar Kale segir að ástæðan fyrir því að hann hafi ekki gert nýjan samning við Víking R. nú í vetur, eftir að tímabilinu í Pepsi-deildinni lauk, sé sú að forráðamenn Víkings hafi boðið honum 30% lægri laun.

Þetta segir Ingvar í viðtali við Fótbolta.net í dag. Ingvar hóf meistaraflokksferil sinn í Víkingi en þessi 31 árs gamli markvörður spilaði svo með Breiðabliki árin 2009-2012 áður en hann sneri aftur til Víkinga.

„Ég talaði við Víkingana fyrir tveimur árum og samdi þá um að taka skref niður frá Blikunum í úrvalsdeild og fara í 1. deild þegar Víkingur var um miðja deild þar. Við fórum upp og beint í topp fjóra á Íslandi og þá finnst mér ekki rétt að lækka launin mín um 30% eins og þeir vildu,“ sagði Ingvar við Fótbolta.net.

Ingvar hefur því kvatt Víkinga eftir 20 tímabil með liðinu í meistara- og yngri flokkum. Hann kveðst hafa rætt við eitt félag og vera með fleiri járn í eldinum, en ætli að taka sér góðan tíma í að velja næsta skref.

Víkingur hafnaði í 4. sæti Pepsi-deildarinnar í haust og leikur því í forkeppni Evrópudeildarinnar á næstu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert