Brynjar Gauti samdi til tveggja ára

Brynjar Gauti Guðjónsson.
Brynjar Gauti Guðjónsson. mbl.is/Ómar

Miðvörðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson skrifaði í dag undir samning til tveggja ára við Íslandsmeistara Stjörnunnar í Garðabæ og mun því leika með liðinu í Pepsi-deildinni á næsta ári.

Brynjar Gauti hafði áður staðfest það í viðtali við Morgunblaðið í gær að hann hefði náð samkomulagi við Stjörnuna.

„Ég vildi fara í lið sem væri í toppbaráttu og að keppa um titla, og það er klárlega markmiðið hjá Stjörnunni. Þar er allt til staðar til þess, liðið í Meistaradeildinni og mér líst mjög vel á alla umgjörð hérna og þjálfarana. Þetta er virkilega spennandi,“ sagði Brynjar Gauti við Morgunblaðið.

Brynjar Gauti er 22 ára gamall og var síðast á mála hjá ÍBV en hann lék með liðinu í fjögur ár eftir að hafa áður verið fyrirliði Víkings Ólafsvík. Hann á að baki 9 leiki fyrir U21-landslið Íslands og lék til að mynda báða umspilsleikina við Danmörku um sæti í lokakeppni EM í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert