Ingvar samdi við Start

Ingvar Jónsson er á leið til Start.
Ingvar Jónsson er á leið til Start. mbl.is/Ómar

Ingvar Jónsson, markvörður Íslandsmeistara Stjörnunnar í knattspyrnu, er genginn til liðs við norska úrvalsdeildarfélagið Start en Ingvar staðfesti við mbl.is að gengið hefði verið frá samningum rétt í þessu.

Ingvar samdi við félagið til þriggja ára en núverandi markvörður liðsins á eitt ár eftir af samningi sínum.

„Ég fer beint í harða samkeppni við hann og hlakka mikið til. Mér líst mjög vel á Start, þetta er flott félag með frábæran heimavöll og stuðningsmenn og það er ekki verra að vera með tvo aðra Íslendinga í liðinu en ég hef fengið góða punkta frá þeim," sagði Ingvar við mbl.is en Matthías Vilhjálmsson og Guðmundur Kristjánsson leika með liðinu.

„Ég á að vera mættur til æfinga 5. janúar og mun nýta tímann fram að því til að æfa vel og vera tilbúinn í slaginn. Ég er gríðarlega ánægður og tel að þetta sé rétti tíminn fyrir mig til að fara í atvinnumennskuna," sagði Ingvar Jónsson, sem í haust var valinn besti leikmaður Pepsi-deildar karla á árinu 2014.

Ingvar verður sjöundi Íslendingurinn til að spila með Start en auk þess stjórnaði Guðjón Þórðarson liðinu síðustu mánuði tímabilsins 2002.

Skagamaðurinn Guðbjörn Tryggvason fór fyrstur Íslendinga til Start árið 1985. Guðni Rúnar Helgason lék með liðinu 2002, Jóhannes Harðarson, nýráðinn þjálfari ÍBV, spilaði með því frá 2004 til 2007, Keflvíkingurinn Haraldur Freyr Guðmundsson lék með liðinu 2011 og þeir Matthías og Guðmundur hafa spilað með Start frá 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert