Enn sterkari Algarve-bikar

Íslenska liðið kom mjög á óvart á Algarve í fyrra …
Íslenska liðið kom mjög á óvart á Algarve í fyrra og fagnar hér sigri á Svíum í leiknum um bronsverðlaunin. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Noregi, Bandaríkjunum og Sviss í riðlakeppni Algarve-bikarsins í Portúgal í mars 2015 en liðunum hefur verið stillt upp í riðla fyrir mótið.

Andstæðingar Íslands eru allir á leiðinni á HM í Kanada næsta sumar svo þetta verður heldur betur krefjandi verkefni fyrir íslenska liðið. 

Algarve-bikarinn hefur til þessa verið sterkasta mót í heiminum ár hvert fyrir utan lokakeppni HM eða EM. Nú verður mótið enn sterkara en áður. Til þessa hafa átta sterkar þjóðir verið í A- og B-riðlum mótsins en fjórar veikari í C-riðlinum.

Nú verða hinsvegar ellefu af 20 bestu landsliðum heims með á mótinu, auk gestgjafanna í Portúgal.

Brasilía er á meðal þátttökuþjóða í fyrsta skipti og þar með eru sex efstu þjóðir heimslistans með á mótinu.

Riðlaskiptingin er þannig, staða liðanna á heimslistanum í svigum:

A-RIÐILL:
Svíþjóð (5)
Þýskaland (2)
Brasilía (6)
Kína (14)

B-RIÐILL:
Noregur (9)
Bandaríkin (1)
Sviss (18)
Ísland (20)

C-RIÐILL:
Danmörk (12)
Frakkland (4)
Japan (3)
Portúgal (41)

Níu þessara liða leika á HM í Kanada næsta sumar, öll nema Ísland, Danmörk og Portúgal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert