ÍA samdi við markaskorara KA-manna

Arsenij Buinickij er genginn til liðs við ÍA en hann …
Arsenij Buinickij er genginn til liðs við ÍA en hann var helsti markaskorari KA-manna síðasta sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nýliðar Skagamanna hafa styrkt leikmannahóp sinn fyrir komandi átök í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, en félagið samdi í dag við tvo erlenda leikmenn um að spila með liðinu í sumar.

Annars vegar er um að ræða Arsenij Buinickij, framherja frá Litháen, en hann raðaði inn mörkunum fyrir 1. deildar lið KA síðastliðið sumar og var með markahæstu mönnum með tíu mörk. Hann er þrítugur að aldri og var meistari í heimalandi sínu með liði Ekranas árið 2012.

Þá samdi ÍA sömuleiðis við miðjumanninn Marko Andelkovic frá Serbíu, en hann hefur verið á reynslu síðustu daga. Hann spilaði síðast með Viitorul frá Rúmeníu en er uppalinn hjá Partizan Belgrad í heimalandinu. Hann var einnig á mála hjá Ekranas ásamt Buinickij og var kosinn besti erlendi leikmaðurinn í sögu félagsins.

„Við erum búnir að vinna í þessum leikmönnum í nokkurn tíma og ég er ánægður með að ná loksins að klára þetta. Við fylgdumst vel með Arsenji síðasta sumar og hann er góður sóknarleikmaður með mikla reynslu. Marko kom svo til landsins á reynslu síðustu daga og augljóst að þar er á ferðinni leikreyndur miðjumaður sem er öruggur á boltann og kemur til með að styrkja liðið mikið,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Skagamanna, við heimasíðu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert