Leiknismenn í undanúrslit

Hilmar Árni Halldórsson skoraði sigurmark Leiknis í dag.
Hilmar Árni Halldórsson skoraði sigurmark Leiknis í dag. mbl.is/Eva Björk

Leiknismenn eru komnir í undanúrslitin á Reykjavíkurmóti karla í knattspyrnu eftir sigur á Valsmönnum, 3:2, í Egilshöllinni í dag.

Valsarar voru manni færri frá 15. mínútu þegar Ragnar Þór Gunnarsson fékk rauða spjaldið. Þá var staðan 1:1, Frymezim Vesalaj kom Leikni yfir en Kristinn Freyr Sigurðsson jafnaði fyrir Val.

Kristinn skoraði svo aftur fyrir tíu Valsmenn úr vítaspyrnu eftir hálftíma leik, 2:1. Þannig var staðan þangað til fimm mínútur voru eftir en þá jafnaði fyrrverandi Valsmaðurinn Kolbeinn Kárason fyrir Leikni, 2:2. Breiðhyltingar fengu síðan vítaspyrnu í uppbótartímanum og Hilmar Árni Halldórsson skoraði sigurmarkið.

Leiknir er með 8 stig og hefur lokið keppni í riðlinum. Valur er með 6 stig, ÍR 3, Þróttur og Víkingur eitt stig hvort lið. Leikur Þróttar og Víkings stendur yfir og sigurliðið þar getur enn náð öðru sætinu og farið áfram. Endi leikurinn með jafntefli eru Valsmenn komnir áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert