„Ég er bara bjartsýnn“

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, tilkynnti á dögunum að hann hefði ákveðið að gefa kost á sér í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, þegar kosið verður til hennar á þingi sambandsins 24. mars. Þá gefur Geir jafnframt kost á sér í endurkjöri í embætti formanns KSÍ á ársþingi sambandsins í næsta mánuði en Geir hefur gegnt því embætti frá árinu 2007.

„Ég er í hópi reyndari formanna í Evrópu og nú bíður maður bara eftir því hvað framboðin verði mörg. Ég hef í gegnum árin tekið þátt í ýmsu starfi hjá UEFA í nefndum,“ sagði Geir Þorsteinsson við Morgunblaðið en kosið verður um sjö stjórnarmenn af fimmtán.

„Ég fékk hvatningu frá nokkrum formönnum að gefa kost á mér og það ásamt því að ég er einn af reyndari formönnum innan Knattspyrnusambands Evrópu réð miklu um að ég ákvað að slá til. Ég hef fengið klapp á bakið fyrir þau störf sem ég hef sinnt fyrir UEFA og allt skiptir þetta máli. Ég hef ekki gengið með þetta í maganum en þegar maður er búinn að vera lengi í þessu og þekkir innviðina vel þá hefur maður alveg reynslu til að takast á við þessi málefni. Ég veit að það verður harður slagur um þessi sæti. Þarna er mikil pólitík í gangi,“ sagði Geir.

Sjá allt viðtalið við Geir í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert