Birnir afgreiddi KR-inga

Aron Sigurðarson, til hægri, skoraði fallegt mark fyrir Fjölni gegn …
Aron Sigurðarson, til hægri, skoraði fallegt mark fyrir Fjölni gegn KR. mbl.is/Styrmir Kári

Fjölnismenn tryggðu sér í kvöld sigur í A-riðli Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu með því að sigra KR, 2:1, í Egilshöllinni. Bæði lið voru þegar komin í undanúrslit eftir að hafa unnið tvo fyrstu leiki sína með nákvæmlega sömu markatölu.

Gunnar Þór Gunnarsson kom KR yfir snemma leiks en Aron Sigurðarson jafnaði skömmu fyrir hlé með glæsilegu skoti. Birnir Snær Ingason skoraði sigurmark Fjölnis snemma í seinni hálfleik en hann er 18 ára gamall og skoraði líka sigurmark Grafarvogsliðsins gegn Fylki á dögunum.

Fram og Fylkir skildu jöfn, 1:1, þar sem Stefán Ragnar Guðlaugsson kom Fylki yfir í fyrri hálfleik en Alexander Már Þorláksson jafnaði fyrir Fram úr vítaspyrnu í síðari hálfleik.

Fjölnir fékk 9 stig, KR 6, Fylkir 1 og Fram 1 stig.

Annað kvöld kemur í ljós hverjir mótherjar Fjölnis og KR verða. Leiknir R. er kominn áfram úr B-riðlinum en hitt liðið verður Valur eða Víkingur. 

Ef Valsmenn sigra Þrótt vinna þeir riðilinn og mæta þá KR en Fjölnir mætir Leikni. Að öðrum kosti vinnur Leiknir riðilinn og mætir KR en liðið í öðru sæti, Valur eða Víkingur, mætir þá Fjölni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert