Dagný er grjóthörð

„Flestir leikmenn eru heilir heilsu og þetta eru frábærar aðstæður til að undirbúa okkur,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu, daginn fyrir fyrsta leik í Algarve-bikarnum.

Ísland mætir Sviss á morgun kl. 15 en Svisslendingar unnu báða leiki þjóðanna í síðustu undankeppni HM, með sannfærandi hætti.

„Þetta er ótrúlega vel spilandi lið, vel skipulagt með mikinn styrkleika í hröðum sóknum. Við höfum átt í erfiðleikum með að verjast hröðum sóknum og ætlum að nýta daginn á morgun í að æfa lágpressuna, sem við ætlum að blanda inn í okkar leik fyrir næstu undankeppni. Við ætlum að loka þeim svæðum sem þær hafa ógnað okkur á í síðustu leikjum,“ sagði Freyr við Þorvald Ingimundarson, starfsmann KSÍ, í blíðviðrinu á Algarve. Aðspurður hvort óvissa ríkti um einhverja leikmenn fyrir leikinn á morgun svaraði þjálfarinn:

„Katrín Ómarsdóttir fékk höfuðhögg í síðustu viku, sem er alltaf varasamt, en henni líður mjög vel. Dagný [Brynjarsdóttir] spilaði á sunnudaginn í Þýskalandi og fékk þar einhver högg, en hún er náttúrulega grjóthörð og segir að það sé allt í lagi með sig. Við sjáum til á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert