Þetta var ekki víti

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir. mbl.is/Eva Björk

„Við vorum mjög þéttar varnarlega. Það var erfitt að opna okkur og í fyrri hálfleiknum fengu þær ekki nein færi. Mér fannst við mjög sterkar mestallan leikinn,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir eftir 2:0-tap Íslands gegn Sviss í Algarve-bikarnum í knattspyrnu í dag.

Sviss komst yfir úr vítaspyrnu á 56. mínútu sem dæmd var á Önnu Maríu Baldursdóttur, fyrir litlar sakir að mati leikmanna íslenska liðsins.

„Satt besta að segja þá fannst mér þetta bara ekki vera víti. En svona gerist, stundum falla dómarnir ekki með manni. Við hefðum frekar átt að fá vítaspyrnu þegar brotið var á Margréti Láru skömmu síðar en svona getur þetta verið,“ sagði Gunnhildur. Ísland átti nokkrar tilraunir til að koma boltanum í netið en inn vildi boltinn ekki:

„Hallbera átti skot í stöng og út, beint úr hornspyrnu, og svo klúðraði ég dauðafæri. Við áttum nokkur hálffæri til viðbótar en náðum ekki að nýta þau,“ sagði Gunnhildur, sem er klár í næsta leik gegn Noregi á föstudaginn:

„Við ættum nú að geta strítt þeim. Það verður eflaust algjör hörkuleikur.“

Tveggja marka tap gegn Sviss

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert