Margrét Lára fyrirliði á ný

Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Knattspyrnukonan Margrét Lára Viðarsdóttir og leikmaður Kristianstad er fyrirliði íslenska liðsins sem spilar gegn Bandaríkjunum á Algarve Cup kl. 18 að íslenskum tíma í dag en Freyr Alexandersson var ekki búinn að ákveða fyrir mótið hver ætti að vera fyrirliði liðsins.

Sara Björk Gunnarsdóttir hefur verið fyrirliði Íslands undanfarið ár og bar fyrirliðabandið í fyrsta leik liðsins gegn Sviss á mótinu sem tapaðist 2:0 en hún missir hins vegar bandið í hendur Margrétar Láru sem er í byrjunarliði ásamt Söru í dag.

Margrét Lára var með fyrirliðabandið í stutta stund eftir að landsliðskonan fyrrverandi Katrín Jónsdóttir lagði skóna á hilluna haustið 2013 en fyrirliðatíð Margrétar stóð ekki lengi þar sem hún fór í barneignafrí í október sama ár. Frá þeim tíma hefur Sara Björk verið fyrirliði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert