Hissa að þeir séu ekki með fleiri stig (myndskeið)

Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, sagði á fréttamannafundi í Astana í morgun að undirbúningur íslenska liðsins fyrir leikinn gegn Kasakstan sem fram fer á morgun hefði gengið mjög vel en íslenska liðið kom til Astana aðfaranótt þriðjudags.

„Það er búið að vera mjög gott að dvelja hérna á allan hátt. Öll aðstaða er til fyrirmyndar, skilyrði til æfinga algjörlega fullkomin, maturinn er góður og heildarundirbúningurinn hefur gengið vel.

Við höfum ekki lent í neinum meiðslum, það er reyndar ein æfing eftir (sem var að ljúka), og það er alltaf gott.

Þegar komið er í svona leik í undankeppni á maður allaf von á erfiðum leik. Við höfum skoðað fyrri leiki Kasaka og þeir hafa spilað frekar góðan fótbolta. Ég er dálítið hissa á því að þeir skuli ekki vera með fleiri stig en það eina sem þeir fengu var gegn Lettum. Þetta er gott lið og við verðum að vera á tánum ef við ætlum að ná í þrjú stig hérna. Það er að sjálfsögðu okkar markmið, við stefnum að sigri, og þetta verður mjög áhugaverður leikur,“ sagði Lars Lagerbäck.

Sjá má og heyra í Lagerbäck á fundinum á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert